Ferill 863. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1831  —  863. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni safna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna Gljúfrasteinn – hús skáldsins, Kvikmyndasafn Íslands, Listasafn Einars Jónssonar, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands, Hljóðbókasafn Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn?
     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna fyrrgreindra safna, sundurliðað eftir söfnum, og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?


     Gljúfrasteinn – hús skáldsins starfar á grundvelli gjafabréfs sem undirritað var 21. apríl 2002 af Auði Sveinsdóttur, f.h. fjölskyldu Halldórs Laxness, og Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra. Hlutverk Gljúfrasteins er að sýna heimili Halldórs Laxness sem lifandi safn og standa vörð um lífsstarf hans. Áhersla er lögð á að safna, varðveita, rannsaka og miðla þekkingu um verk Halldórs Laxness og ævi hans og miðla þeim fróðleik m.a. með sýningum, útgáfum og öðrum hætti.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Gljúfrasteins – húss skáldsins fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Gljúfrasteins – húss skáldsins samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 59,8 millj. kr.

     Kvikmyndasafn Íslands starfar samkvæmt kvikmyndalögum, nr. 137/2001. Hlutverk Kvikmyndasafns Íslands er að:
     1.      Safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir, samvinnuverkefni íslenskra og erlendra aðila og erlendar kvikmyndir sem teknar hafa verið á Íslandi, þ.m.t. að varðveita skilaskylt efni samkvæmt lögum um skylduskil til safna.
     2.      Hafa eftirlit með skylduskilum kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skylduskil til safna.
     3.      Standa fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist.
     4.      Sjá um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins.
     5.      Skapa fræðimönnum og fagmönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir.
     6.      Efla og kynna kvikmyndamenningu á Íslandi á sviði sögulegrar kvikmyndalistar.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Kvikmyndasafns Íslands fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Kvikmyndasafns Íslands samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 117,7 millj. kr.

     Listasafn Einars Jónssonar starfar á grundvelli arfleiðsluskrár Einars Jónssonar og konu hans, Önnu Maríu Mathilde Jónsson, frá 11. september 1954, sem kveður á um að hlutverk safnsins sé að varðveita, sýna og rannsaka verk Einars Jónssonar, halda skrá um verk hans, heimildir um æviferil og fleira er tengist lífi og list listamannsins.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Listasafns Einars Jónssonar fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Listasafns Einars Jónssonar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 56,8 millj. kr.

     Listasafn Íslands starfar samkvæmt myndlistarlögum, nr. 64/2012. Listasafn Íslands skal vera meginsafn íslenskrar myndlistar í landinu og miðstöð rannsókna, heimildasöfnunar og kynningar á íslenskri myndlist. Skulu helstu verkefni safnsins vera þessi:
     a.      að afla svo fullkomins safns íslenskrar myndlistar sem unnt er, skrá það, varðveita og sýna, innan lands og utan. Leitast skal við að afla verka sem endurspegla sem best nýja strauma og stefnur í íslenskri myndlist á hverjum tíma,
     b.      að rannsaka eftir föngum íslenska myndlist að fornu og nýju,
     c.      að afla viðurkenndra erlendra listaverka og má verja í því skyni tíu af hundraði af því fé sem safninu er fengið til listaverkakaupa. Heimilt er að hækka hundraðshluta þennan í allt að tuttugu af hundraði þegar sérstaklega stendur á og allir safnráðsmenn eru því sammála. Geyma má fé í þessu skyni frá ári til árs,
     d.      að annast fræðslustarfsemi um myndlist, innlenda og erlenda, m.a. með fyrirlestrum, kvikmyndasýningum, leiðsögn um safnið, útgáfu mynda, myndbanda, litskyggna og rita eða með öðrum þeim hætti er henta þykir og fé er veitt til í fjárlögum,
     e.      að afla heimilda um íslenska myndlist að fornu og nýju og kaupa til safnsins nauðsynlegan bókakost, aðgengilegan sérfræðingum og öðrum til fræði- og rannsóknastarfa. Skal í því skyni komið á fót við safnið sérfræðilegu bókasafni um myndlist samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð,
     f.      að efna til kynninga á verkum safnsins og starfsemi þess,
     g.      að veita innlendum söfnum faglega ráðgjöf eftir föngum,
     h.      að veita erlendum söfnum og öðrum opinberum aðilum upplýsingar um íslenska myndlist eftir því sem við verður komið.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Listasafns Íslands fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Listasafns Íslands samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 424,9 millj. kr.

     Náttúruminjasafn Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 35/2007. Safnið er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi. Náttúruminjasafnið safnar munum sem henta starfsemi þess, skráir þá og varðveitir. Safnið aflar upplýsinga sem veita yfirlit yfir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan og annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi með það að markmiði að veita sem víðtækasta sýn á íslenska náttúru. Safnið skal miðla fræðslu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings. Safnið annast rannsóknir á starfssviði sínu. Náttúruminjasafn Íslands veitir öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu þeirra hér á landi og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða. Náttúruminjasafnið skal eiga samstarf við vísinda- og rannsóknastofnanir á sviði náttúrufræða á vegum ríkisins og annarra aðila.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Náttúruminjasafns Íslands fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Náttúruminjasafns Íslands samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 104,2 millj. kr.

     Þjóðminjasafn Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 140/2011. Safnið er höfuðsafn á sviði menningarminja. Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands er að stuðla sem best að varðveislu íslenskra menningarminja og miðla sögu þjóðarinnar. Hlutverk sitt rækir safnið einkum með því að:
     a.      safna, skrá og varðveita menningar- og þjóðminjar,
     b.      taka við og varðveita fornmuni, sýni og önnur rannsóknargögn úr fornleifarannsóknum,
     c.      rannsaka og annast kynningu á menningarminjum með sýningum, útgáfu á fræðilegum ritum og annarri fræðslustarfsemi til að veita sem víðtækasta sýn á íslenska sögu og setja hana í alþjóðlegt samhengi,
     d.      miðla þekkingu um íslenska menningu til skóla, fjölmiðla og almennings,
     e.      annast minjavörslu í nánu samstarfi við Minjastofnun Íslands og eiga í samstarfi við önnur höfuðsöfn,
     f.      móta stefnu um söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun menningar- og þjóðminja,
     g.      stuðla að samvinnu menningarminjasafna,
     h.      veita öðrum menningarminjasöfnum ráðgjöf,
     i.      halda skrá yfir lausamuni í einkaeigu er teljast til þjóðarverðmæta,
     j.      annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Þjóðminjasafns Íslands fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Þjóðminjasafns Íslands samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 1.269,9 millj. kr.

     Þjóðskjalasafn Íslands starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn. Hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands við framkvæmd opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar er m.a. að:
     a.      setja reglur og veita leiðbeiningar um hvernig skjalastjórn og skjalavörslu skuli hagað hjá stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga svo og öðrum afhendingarskyldum aðilum.
     b.      setja reglur um frágang og afhendingu skjala- og gagnasafna afhendingarskyldra aðila til opinberra skjalasafna; reglurnar skulu staðfestar af ráðherra,
     c.      setja reglur um varðveislu og förgun skjala; reglurnar skulu staðfestar af ráðherra,
     d.      gera tillögu til ráðherra um að veita skuli sveitarstjórn eða byggðasamlagi leyfi til að koma á fót héraðsskjalasafni til að sinna hlutverki opinbers skjalasafns og gefa út rekstrarleyfi því til handa að fengnu samþykki ráðherra.
     e.      hafa eftirlit með rekstri héraðsskjalasafna.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Þjóðskjalasafns Íslands fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Þjóðskjalasafns Íslands samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 425,9 millj. kr.
     Hljóðbókasafn Íslands starfar samkvæmt ákvæðum bókasafnalaga, nr. 150/2012. Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Hljóðbókasafns Íslands fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Hljóðbókasafns Íslands samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 150,4 millj. kr.

     Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn starfar samkvæmt ákvæðum bókasafnalaga, nr. 150/2012. Í lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011, er mælt fyrir um hlutverk safnsins. Því er ætlað að vera í senn þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands og sem rannsóknarbókasafni ber því að halda uppi upplýsingaþjónustu fyrir alla landsmenn á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu, atvinnulífs og lista- og menningarmála.
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns fellur undir málefnasvið 18.10 Safnamál. Fjárheimild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 1.333,9 millj. kr.